Tveir nýir heiðursfélagar Víkings

29. desember 2023 | Félagið
Tveir nýir heiðursfélagar Víkings
Á mynd (frá vinstri) Björn Einarsson formaður Víkings - Frank Hall - Hannes Guðmundsson

Þeir Frank Hall og Hannes Guðmundsson voru í dag útnefndir heiðursfélagar í Víking við hátíðlega athöfn í hátíðarsal okkar Víkinga í Safamýri.

Frank Hall er fæddur árið 1944 og ólst upp á Vatnsenda, sem sannarlega var þá á hjara veraldar. Skólabíll flutti barnaskólakrakkana á Vatnsenda ýmist í Kópavogsskóla eða Miðbæjarskóla, en gagnfræðanámið stundaði Frank hins vegar við Réttarholtsskóla, sem hóf starfsemi 1956. Í Réttó réðu Vikingar ríkjum og þar eignaðist Frank vini til lífstíðar og félag til framtíðar. Síðar fór Frank í iðnnám og er vélvirki eða vélstjóri eða vélfræðingur eða hvað þetta heitir og starfaði lengst af hjá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi.

Frank hóf snemma störf með skíðadeild Víkings og ófáar ferðirnar fór hann til að æfinga í Sleggjubeinsskarði. Sextán ára gamall var hann kosinn í stjórn skíðadeildar og starfaði í stjórninni í nokkur ár. Þéttur hópur stóð að skíðadeildinni í Sleggjubeinsskarði og í fjölda ára var Frank kallaður til alls konar verkefna í fjallinu og þá var ekkert endilega spurt hvað klukkan væri. Hann og margir aðrir handlagnir iðnaðarmenn gerðu og græjuðu það sem þurfti að lagfæra eða byggja við. Frank keppti í svigi og stórsvigi fyrir Víking bæði í flokki fullorðinna og í mörg ár í öldungaflokki.

Frank var líka af krafti í fótboltanum og spilaði í yngri flokkunum og 32 leiki með meistaraflokki í byrjun sjöunda áratugarins, yfirleitt sem haffsent.

Síðustu sjö starfsár Franks, 2007-2014, var hann vallarstjóri í Víkinni og gekk þar í öll verk. Siðustu 25 ár hefur Frank verið í heimaleikjaráði knattspyrnudeildar og þar liggja mörg handtök. Þegar óbreyttir áhorfendur koma á völlinn er allt tilbúið fyrir leik og myndarleg fánaborg komin upp í Víkinni. Fólk heldur kannski að þetta gerist sjálfkrafa en auðvitað er það heimaleikjaráðið sem sér um að flagga og vinna ýmis önnur störf við völlinn.

Frank er meðal höfðingjanna sem hittast vikulega i Víkinni og af lítillæti kalla sig Vitringana. Þar er Frank á heimavelli og hefur sterkar skoðanir á því hvernig Arnar stillti liðinu upp í síðasta leik og hvernig leikmenn og dómarar stóðu sig. Sannarlega hefur Frank verið hluti af Víkingi í áratugi og að sama skapi hefur Víkingur verið hluti af lífi hans.

Á heimavelli er staðan sú að eiginkona Franks er Guðlaug Magnúsdóttir og svo skemmtilega vill til að þau hittust í ferð á vegum Víkings í Þjórsárdal 1961. Börn þeirra eru Katrín, Frank Þórir og Bjarni Lárus og voru bræðurnir báðir öflugir á skíðum í Víkingi. Þá á Baddi Hall um 150 leiki með meistaraflokki Víkings í fótbolta og hver man ekki eftir Jeff Who og Bar Fly.

Hannes Guðmundsson er fæddur 1952 og alinn upp i Langagerði í Víkingshverfinu miðju.

Ungur valdist Hannes til stjórnarstarfa í handboltanum. Hann var fyrst kosinn í stjórn 1973 og sat í stjórn handknattleiksdeildar óslitið til 1982, þar af var hann formaður deildarinnar 1974–76. Á þessum árum stundaði Hannes nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands og var að koma sér og sínum upp þaki yfir höfuðið. Samt sem áður var tími til ómældra starfa fyrir Víking, kannski vegna þess að stjórn og leikmenn var einstakur og samhentur hópur. Það var einfaldlega skemmtilegt að standa í þessari baráttu.

Víkingur varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skipti 1975 undir stjórn Karls Benediktssonar þjálfara. Þar með var ísinn brotinn og einstök sigurganga Víkings var hafin. Næstu árin söfnuðust bikarar í félagsheimiliðið í Hæðargarði undir stjórn Bogdans Kowalczyk og fram til vorsins 1987 urðu Íslandsmeistaratitlarnir alls sjö og bikartitlarnir sex. Hannes var auk annarra starfa liðsstjóri hjá Karli Benediktssyni og fyrstu árin hjá Bogdan, en liðsstjórar sáu á þessum árum meðal annars um að þvo keppnistreyjurnar.

Bogdan var þjálfari Víkings 1978–1983 og kunna gamlir stjórnamenn endalausar sögur af samskiptunum við Bogdan allt frá því að hann var ráðinn, en frá samningum við Bogdan var gengið í gegnum síma um miðja nótt. Systir Bogdans var milligöngumaður og túlkur, en eitthvað vantaði upp á tungumálakunnáttu Pólverjanna. Víkingarnir voru ekkert alltof vissir um niðurstöðuna, en Bogdan kom til landsins á réttum tíma og reyndist einstakur happafengur.

Hannes var sannarlega réttur maður á réttum stað áratuginn sem hann sat í stjórn handknattleiksdeildar en fleiri en Víkingur hafa notið krafta hans. Hann var formaður Golfklúbbs Reykjavikur 1986-1989 og forseti Golfsambands Íslands 1993-1998. Þá hefur hann verið virkur í starfi Rótary og Frímúrara svo eitthvað sé nefnt. Fyrst minnst er á golfið þá spilar Hannes golf vikulega á sumrin með vöskum hópi og að sjálfsögðu kallar hópurinn sig Víkingasveitina þó svo að þarna sé líka að finna meðal annars Valsara, KR-ing og Blika. Næsta sumar verða fjórir heiðursfélagar í Víkingi í Víkingasveitinni.

Eiginkona Hannesar er Ingibjörg Halldórsdóttir og ekki er ólíklegt að hún hafi þvegið ófáa Víkingsbúninga árin serm Hannes var liðsstjóri i handboltanum. Börn Ingu og Hannesar eru Haukur og Lára. Bróðir Hannesar er Magnús Guðmundsson, Íslandsmeistari og landsliðsmaður í handbolta á árum áður, og systir þeirra er Nanna sem í mörg ár hefur setið í aðalstjórn Víkings. Óhætt er að segja að Vikingur hafi alla tíð verið stór hluti af lífi þessa fólks.

Til hamingju Frank og Hannes og takk fyrir allt ykkar starf í þágu Víkings.