Takk fyrir sumarið!

31. október 2022 | Knattspyrna
Takk fyrir sumarið!

Tímabili karlaliðs Víkings lauk á laugardag þegar við mættum Breiðablik í lokaleik Bestu deildar karla. Þrátt fyrir að hafa ekki orðið Íslandsmeistarar má segja að þetta tímabil hafi verið það glæsilegast í 114 ára sögu Víkings. Liðið byrjaði tímabilið á að verða Meistari Meistaranna í apríl þegar við unnum Breiðablik 1-0 og endaði tímabilið á að vinna Mjólkurbikarinn þriðja skiptið í röð. Þá endaði liðið í 3. sæti Bestu deildar karla árið 2022.

Í sumar náði liðið einnig merkum áfanga í sögu Íslenskra knattspyrnu í Evrópukeppni. Við unnum stærsta útisigur íslensks liðs í Evrópukeppni gegn Levadia Tallin, sigruðum Inter D´escaldes, gáfum Malmö FF alvöru leiki í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu, sigruðum The New Saints í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu og vorum mjög nálægt því að komast í gegnum 3. umferðina gegn stórliðinu Lech Poznan frá Póllandi þar sem við unnum heimaleikinn 1-0.

Samtals spilaði karlalið Víkins í sumar 42 leiki og skoraði Víkingur 107 mörk í öllum keppnum: Eitt mark í Meistarar meistaranna, 66 í Bestu deild karla, 24 í Mjólkurbikar karla og 16 mörk í Evrópu.

Þessi árangur hefði ekki náðst án ykkar kæru stuðningsmenn. Við þökkum ykkur kærlega fyrir stuðninginn í sumar og bíðum spennt eftir öðru glæsilegu tímabili að ári.

Áfram Víkingur!