Páll og Diðrik heiðursfélagar

3. janúar 2023 | Félagið
Páll og Diðrik heiðursfélagar
Páll Björgvinsson og Diðrik Ólafsson

Að tillögu heiðursmerkjaráðs Víkings útnefndi aðalstjórn Víkings þá Pál Björgvinsson og Diðrik Ólafsson heiðursfélaga í Víkingi í hófi síðastliðinn föstudag, 30.12.22

Þeir eru báðir fæddir árið 1951 og eru af „ætt frumbyggja“ í Bústaða- og Smáíbúðahverfi. Þeir tóku báðir þátt í mesta  uppbyggingarskeiði í sögu félagsins og urðu miklir afreksmenn í íþróttum.  Þeir ólust upp á Tunguvegi og í Langagerði og voru aðeins 100-200 metrar á milli heimila þeirra, í  raun var aðeins hitaveitustokkurinn á milli. Oftsinnis voru þeir samferða á æfingar hjá Víkingi þar sem Eggert Jóhannesson og Pétur Bjarnarson réðu ríkjum árum saman. Malarvöllur við Réttarholtsskóla og túnblettir í ört vaxandi hverfi voru einnig vinsælir leikvellir framan af. Boltinn átti hug þeirra flestum stundum og ekki vantaði leikfélagana því mörg heimilin voru barnmörg. Snemma voru þessir snillingar og góðu félagar kallaðir inn á stóra sviðið til að æfa og síðan keppa með meistaraflokkum félagsins.

Haustið 1981 líður eldri Víkingum seint úr minni, en þá varð Víkingur Íslandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í 57 ár.  Eftir gott gengi á fyrstu árum þessa gamla miðbæjarfélags og Íslandsmeistaratitla 1920 og 1924 hallaði undan fæti. Vonarstjörnur kviknuðu endrum og sinnum og bestu leikmenn vöktu athygli og voru kallaðir í úrvalslið. Herslumuninn vantaði þó og þau tímabil komu þar sem erfitt var að halda félaginu á lífi. Gömlu forystumennirnir gáfust samt ekki upp og þegar komið var fram yfir miðja síðustu öld flutti félagið búferlum og uppbygging hófst við Hæðargarð.

Titlar í yngri flokkum urðu nánast árlegir frá þeim fyrsta um árabil sem kom haustið 1959. Menn fóru að gera ráð fyrir Víkingi sem alvöru andstæðingi. Liðið vann aðra deildina 1969, 1971 og 1973 og sigur í bikarkeppni Knattspyrnusambandsins 1971 var risastór áfangi í uppbyggingu félagsins. Reykjavíkumeisraratitlar 1974 og 1976 höfðu líka mikið að segja fyrir félagið. Smátt og smátt varð félagið sterkara bæði í fótbolta og handbolta.

Að því kom að Víkingur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu 1981 og það kom í hlut Diðriks Ólafssonar að taka við Íslandsbikarnum 1981. Í þeim sporum hafði fyrirliði  Víkings ekki staðið frá því að Einar Baldvin Guðmundsson tók við bikarnum árið 1924. Velgengni hefur fylgt félaginu okkar síðustu ár og svo verður vonandi áfram, en það er hollt að horfa endrum og sinnum til fortíðar og hugleiða þá  vinnu og baráttu sem er að baki.

Diðrik Ólafsson hóf að æfa með Víkingi um 10 ára aldurinn. Fyrsti leikur Diðriks í meistaraflokki var í Reykjavíkurmóti 1968 og frá 1969 til 1981 missti hann ekki marga leiki úr á þessu mikla framfaraskeiði í félaginu. Alls lék hann 273 leiki með meistaraflokki Víkings í fótbolta og er enn meðal leikjahæstu manna í félaginu. Hafa ber í huga að fyrir 50 árum eða svo voru leikirnir á hverju ári talsvert færri en nú er. Þá lék Diðrik þrjá landsleiki fyrir Íslands hönd og var oft valinn í önnur úrvalslið. Hann lagði skóna á hilluna þegar Íslandsmeistarartitillinn var í höfn 1981, þá tæplega þrítugur.  Hann var á sínum tíma einn besti markvörður landsins og gat litið yfir farinn veg með stolti.

Ár eftir ár höfðu menn reynt að bæta umgjörðina og efla starfið. Ár eftir ár æfðu menn vetur og sumur fyrst og fremst áhugans vegna og biðu eftir þeim stóra. Margir höfðu lagt hönd á plóg í uppbyggingu félagsins; leikmenn, þjálfararar, stjórnarmenn og stuðningsfólk. Diðrik  var fulltrúi þessa hóps þegar hann tók við bikarnum 1981, reynslumikill og rólegur, en ákveðinn markvörður og fyrirliði besta knattspyrnuliðs á Íslandi.

Diðrik hélt áfram að vinna fyrir Víking og var liðsstjóri árið eftir þegar Víkingur vann titilinn á nýjan leik. Reynsla hans og þekking skiptu miklu máli þegar Víkingi tókst að verja titilinn, sem var einnig mikið afrek. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk sat Diðrik í nokkur ár í aðalstjórn Víkimgs.

Þjálfari meistaraliða Víkings 1981 og 1982 var Sovétmaðurinn Youri Sedov. Segja má að hann hafi gert það sama fyrir fótboltann og Pólverjinn Bogdan Kowalczyk gerði fyrir handboltann; þeir gerðu lið að meisturum.  Þó svo að góður efniviður væri oft fyrir hendi þurfti sterka þjálfara til að fara alla leið með liðin.

Eiginkona Diðriks er Björk Kristjánsdóttir og eiga þau fimm börn, sem öll hafa verið í íþróttum. Tvíburasysturnar Eva og Sunna léku í mörg ár með liði HK-Víkings í kvennafótboltanum. Björk var meðal þeirra sem sátu í fyrstu stjórn þessa samstarfs og allt fram á síðustu ár var liðið rekið undir hennar kennitölu.

Páll Björgvinsson var aðeins  14 ára þegar hann lék fyrsta leikinn sinn i meistaraflokki á útimóti i Hafnarfirði árið 1965. Þegar hann lagði skóna endanlega á hilluna hafði hann leikið yfir 700 leiki með meistaraflokki Víkings og samtals yfir þúsund meistaraflokksleiki. Auk Víkings þjálfaði Páll og lék með KR, HK, Stjörnunni, Þrótti og Skagamönnum. Afrekalisti Páls er langur og leikjafjöldinn í raun stórmerkilegur.

Víkingur varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skipti 1975 og var Páll Björgvinsson fyrirliði liðsins. Titlarnir áttu eftir að verða fleiri og á næstu árum leiddi Páll félaga sína í Víkingi á pall sigurvegaranna ár eftir ár. Sex sinnum varð Páll Íslandsmeistari með Víkingi, síðast 1986, og  fimm sinnum bikarmeistari með Víkingi og einu sinni sem leikmaður og þjálfari Stjörnunnar.

Víkingsliðið 1980 var árið 2015 valið besta handknattleikslið karla á Íslandi  frá upphafi, en það ár vann Víkingur Íslandsmótið með fullu húsi stiga. Páll var valinn íþróttamaður Reykjavíkur 1982 fyrir afrek sín á handboltavellinum það ár.

Góður grunnur og miklar æfingar voru að baki árangrinum og eflaust hefur Páll búið að því að hafa æft sund og fimleika sem krakki. Ár eftir ár mætti hann ferskur til leiks í handboltanum, sterkur og skotfastur, en líka liðugur og útsjónarsamur. Páll var um árabil fastamaður í íslenska landsliðinu í handbolta og var fyrirliði landsliðsins í  tvö ár. Páll lék 62 landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim 145 mörk.

Páll var í unglingalandsliði Íslands sem varð Norðurlandameistari í handknattleik vorið 1970. Ekki nóg með það heldur var Páll valinn besti sóknarmaður keppnninnar. Árangurinn vakti athygli og í Morgunblaðinu mátti lesa óð til íslensku leikmannanna eftir Gunnar Magnússon frá Reynisdal þar sem meistararnir voru boðnir velkomnir heim úr frægðarförinni. Til gamans er hluti ljóðsins rifjaður upp, en þar segir meðal annars.

Sé ég að ungir
seggir hafa
aukið hróður
ættar Snorra.

Njóti þeir
heilir handa sinna.
Unglingar mestir
um ísafoldu.

Sæmd er Fróni
að sonum slíkum,
gulli betri er
gjörfuleiki.

Fjölhæfni á íþróttasviðinu er sannarlega orð sem nota má um Pál Björgvinsson. Framan af ferlinum var hann einn af burðarásunum í meistaraflokki í knattspyrnu á sama tíma og hann æfði og keppti af krafti í handbolta. Páll á að baki 88 meistaraflokksleiki i fótbolta. Páll varð meðal annars bikarmeistari með Víkingi 1971, en á árunum í kringum 1970 var lagður grunnur að mikilli uppbyggingu Víkings á knattsyrnuvellinum eins og áður er vikið að.

Eiginkona Páls er Ástrós Guðmundsdóttir sem lék með meistaraflokki Víkings í handbolta í mörg ár, alls 211 leiki. Þá sat hún í stjórn handknattleiksdeildar á áttunda áratugnum. Synir þeirra, Ellert og Guðmundur, hafa báðir verið virkir í íþróttum og sama má segja um fleiri afkomendur þeirra.