Nú! er góður tími

Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Víkings, fékk hugmyndina að verkefninu á haustmánuðum 2022. Þá var Halldór, ásamt Bergi Guðnasyni, þegar búinn að hanna aðal- og varatreyju félagsins og koma henni í framleiðslu í góðu samstarfi með Macron sem framleiðir einnig umrædda treyju. Hugmyndin var að fá fatahönnuð til til að hanna treyju sem bæri höfundareinkenni hönnuðarins, frekar en að vera bundin af hefðinni og litum félagsins. Hildur Yeoman var sú sem Halldór leitaði fyrst til, enda einn fremsti fatahönnuður landsins. Hildur fékk frjálsar hendur við hönnunina og er óhætt að segja að litaval og munstur brjóti blað í sögu búninga á Íslandi, ekki bara hjá Vikingi heldur á landinu öllu.

Þegar kom að því að velja góðgerðarmál til að styrkja leituðu Víkingar til fjölskyldu Svavars Péturs Eysteinssonar, eða Prins Póló, en Svavar lést þann 29. september 2022 eftir harða baráttu við krabbamein. Svavar bjó ásamt fjölskyldu sinni í hverfinu, þar sem hún býr enn. Þau eru Víkingar og hafa börnin hans og Berglindar Häsler æft með félaginu. Það var því mikið fagnaðarefni þegar þau samþykktu að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Fjölskylda Svavars lagði til að ágóði verkefnisins færi til Ljóssins.

Munstrið sem sést í treyjunni var handmálað af Hildi Yeoman og má því segja að um listaverk á knattspyrnutreyju sé að ræða. Í hálsmáli treyjunnar stendur: “Nú! er góður tími” en línan var valin af fjölskyldu Svavars og vísar í lag hans sem ber það heiti. Þá er kóróna Prins Póló staðsett fyrir ofan Víkingsmerkið á treyjunni þar sem venjulega er stjarna.

Kaupa treyjuna & styrkja Ljósið

Svavar Pétur

Svavar Pétur Eysteinsson lést 29. september 2022 eftir baráttu við krabbamein. Svavar Pétur, sem var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, var fjölhæfur, hugmyndaríkur og framtakssamur tónlistarmaður, myndlistarmaður, hönnuður, matvælaframleiðandi, frumkvöðull og bóndi sem veitti fjölda fólks innblástur með verkum sínum og vinnu, hugmyndauðgi, krafti, kjarki og þor.

 

Ljósið

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt. Styrktarreikningur Ljóssins er 0130-26-410420 og kennitala er 590406-0740.

 

Hildur Yeoman

Hildur Yeoman er reykvískt fatamerki. Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman hefur unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal fatahönnuður ársins á Íslandi. Hún hefur klætt fólk eins og Taylor Swift, Kehlani,Venus Williams, Ashley Graham, Lauru frá Khruangbin og íslensku söngkonuna Björk. Hildur er þekkt fyrir frásagnargáfu sína og myndskreytingar. Hún býr til nýjan og heillandi heim fyrir hverja línu sem hún framleiðir, þar sem hver lína segir nýja sögu. Sögurnar spanna allt frá íslenskum jurtum og göldrum til sagna innblásnum af mótorhjóla manninum hennar.

 

Þetta verkefni Víkings, Hildar Yeoman og Prins Póló er ekki í fyrsta sinn sem félagið kemur að því að styrkja góð málefni en frá árinu 2021 hefur Víkingur og þátttakendur á Hamingjumóti Petit látið gott af sér leiða, fyrst með því að styrkja Umhyggju, félag langveikra barna með milljon kr. framlagi. Árið 2022 hélt félagið áfram og styrkti Barnaspítala
Hringsins um sömu fjárhæð. Í ár mun félagið styrkja Ljónshjarta, sem eru samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri. Útlit er fyrir að upphæðin verði sú sama og undanfarin ár.

Með þessu framtaki vill Víkingur halda áfram að láta gott af sér leiða og stuðla að skemmtilegra og hamingjusamara samfélagi. Hér eftir sem hingað til lítur Víkingur sér nær, bæði með hugmyndir að skemmtilegum verkefnum og til þess málefnis sem styrkinn hlýtur hverju sinni.

Kaupa treyjuna & styrkja Ljósið

Þakkir

Margir hafa komið að þessu verkefni, öll hafa gefið vel af sér og þökkum við þeim öllum fyrir þeirra framlag. Hugmyndasmiður og verkefnastjóri: Halldór Smári Sigurðsson
Meðframleiðendur og tengiliðir Víkings: Guðjón Guðmundsson, Sverrir Geirdal sem jafnframt hannaði logo verkefnisins og Guðmundur Auðunsson.

  • Ljósmyndari: Berglaug Petra Garðarsdóttir
  • Stílisering: Hulda Halldóra Tryggvadóttir og Selma Lind Árnadóttir.
  • Kristófer Karl Jensson hannaði og útbjó efni á samfélgsmiðla og borgarskjái.
  • Uppsetning og hönnun á vefverslun var í höndum vefhönnunarteymisins Avista.
  • Markaðssetning á netinu og PR mál: Sahara.
  • Módel voru leikmenn meistaraflokka Víkings, þau Birnir Snær Ingason, Logi Tómasson, Nadía Atladóttir og Linda Líf Boama.
  • Önnur módel: Guðrún Ýr Eyfjörð (GDRN), Ragnhildur Gísladóttir, Auðunn Blöndal og Patrik Atlason.
  • Elísa Egilsdóttir Häsler, Hrólfur Svavarsson Häsler og Aldís Svavarsdóttir Häsler.