Hilmar Snær fimmti í sviginu á Vetrarólympíuleikum fatlaðra.

13. mars 2022 | Skíði
Hilmar Snær fimmti í sviginu á Vetrarólympíuleikum fatlaðra.
Hilmar í svigkeppninni í dag - Mynd/ Karl Nilsson

Hilmar Snær Örvarsson frá Skíðadeild Víkings varð áðan fimmti í svigkeppni Paralympics í Peking. Hilmar var níundi eftir fyrri ferðina en seinni ferðin í dag hjá okkar manni var hreint út sagt svakaleg! Lokatími Hilmars var 1:36.92 mín.

Fimmta sætið er besti árangur Íslands á Vetrar Paralympics frá upphafi í alpagreinum en árið 2018 hafnaði Hilmar í 13. sæti í sviginu á Vetrar Paralympics í Suður-Kóreu. Ljóst er að Hilmar er búinn að planta sér rækilega á toppinn sem einn allra besti svigmaður heims um þessar mundir.
Í seinni ferðinni kom Hilmar í mark á 51,75 sek. sem var fjórði besti tíminn en af fimm efstu keppendunum er Hilmar með langhæsta „factorinn” eða 97,06%. Þessi „factor” er fulltrúi fötlunar viðkomandi íþróttamanns svo að Hilmar fær 97,06% af heildartíma sínum í brekkunni skráðan. Allir hinir fjórir keppendurnir eru undir 90% factor.

Aðstæður í dag reyndust mörgum skíðamanninum erfiðar og má þess geta að Finninn öflugi gullverðlaunahafi úr stórsviginu Santeri Kiiveri gerði mistök í brautinni og náði hann ekki að klára en alls 20 keppendur af þeim 46 sem skráðir voru til leiks náðu að klára báðar ferðir. Hér úti hefur verið bæði heitt og sólríkt síðustu daga, brautirnar mikið saltaðar og aðstæður um margt öðruvísi en margur skíðamaðurinn á að venjast.
Frakkinn Bauchet vann gullið á 1:29,61 mín, Kínverjinn Jingyi Liang hreppti silfrið á 1:33.27 mín. og Adam Hall frá Nýja Sjálandi landaði bronsi á 1:33.21 mín.

Nú tekur við eldsnöggur frágangur og að því loknu mun íslenski hópurinn taka þátt í lokaathöfn leikanna og halda heim á leið á morgun, mánudaginn 14. mars.