Hamingjumótið styrkir Umhyggju um milljón krónur!

17. ágúst 2021 | Knattspyrna
Hamingjumótið styrkir Umhyggju um milljón krónur!

Hamingjumót Víkings var haldið í fyrsta sinn nú um helgina. Hamingjumótið tekur við af Arion banka mótinu sem undanfarin 10 ár hefur markað ákveðinn hápunkt í barnastarfi Víkings á hverju ári.

Að þessu sinni var brotið blað í sögunni þar sem hluti af þátttökugjaldinu rann til Umhyggju – félags langveikra barna á Íslandi. „Með þessu viljum við Víkingar stuðla að velferð barna, líka þeirra sem ekki geta tekið þátt í fótboltamótum vegna veikinda“ sagði reynsluboltinn og mótsstjórinn Davíð Ólafsson sem bar hitann og þungann af skipulagningu mótsins eins og undanfarinn áratug.

„Við hjá Umhyggju – félagi langveikra barna erum innilega þakklát Víkingi og öllum þátttakendum Hamingjumótsins fyrir frábæran stuðning. Það yljar manni sannarlega um hjartarætur að Víkingur skuli hafa haft frumkvæði að því að styrkja Umhyggju og sjá um leið að ungir og upprennandi fótboltaleikmenn framtíðarinnar skuli strax vera farnir að láta til sín taka þegar kemur að því að styðja við þá sem þurfa á að halda. Hjartans þakkir fyrir ómetanlegt framtak!“ Sagði Árný Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Umhyggju um leið og hún tók við fyrstu og stærstu ávísun sem gefin hefur verið út af Víkingsbankanum ein milljón króna úr hendi mótsstjórnar

Um 1700 þátttakendur mættu í Víkina um helgina í þrjú sóttvarnarhólf þar sem vel var gætt að öllum sóttvörnum. Takmörkun var á því hversu margir fullorðnir máttu vera í hverju hólfi. Þetta gerði alla skipulagningu áhugaverða. Það var talsverð áskorun fyrir bæði forráðamenn og börn að taka þátt undir þessum kringumstæðum. Viljum við koma á framfæri þakklæti til liðsstjóra foreldra og þjálfara fyrir hversu vel mótshaldið gekk. Sömuleiðis ber að þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum úr félaginu og hverfinu sem lögðu hönd á plóginn. Hvort sem það var við umferðastjórnun, leiðbeiningar um svæðið, hliðverði, tímaverði, afhendingu verðlauna, uppsetningu og/eða dómarastörf. Án sjálfboðaliða væri ómögulegt að framkvæma svona mót. Takk.

Allir þátttakendur fengu verðlaunapoka við mótslok. Í pokanum var forláta hamingjuverðlaunapeningur, gjafabréf frá Hamborgarafabrikkunni og bókin um Berta og þjófóttu mýsnar. Styrktaraðili mótsins, Zaidoon Al-Zubaidy, er höfundur bókarinnar sem fjallar um köttinn Berta, sem getur allt sem hann vill ef hann bara reynir á sig. Von er á fleiri bókum um Berta, þar sem við munum fylgja hans þroska sögu úr óöruggum og óframfærum ketti í sjálfsöruggan og hamingjusaman kött.

Megi hamingjan vera með okkur fram að næsta móti.