Knattspyrna

Það er stundum sagt að það sé æ erfiðara sé í nútíma knattspyrnu að byggja alfarið á leikmönnum sem koma úr yngri flokkum. Auðvitað sjáum við merki um þetta í knattspyrnunni hér og einnig víða um heim þar sem knattspyrna er leikin eins og hún gerist best. Á móti er þó hægt að benda á að þegar FC Barcelona stóð best allra liða í Evrópyu, fyrir örfáum árum, voru gjarnan sjö leikmenn í byrjunarliði sem komu úr unglingastarfi félagsins. Í liði Barcelona í dag eru leikmenn eins og Jordi Alba, Lionel Messi, Andres Iniesta og Sergio Busquets, sem allir knattspyrnuunnendur þekkja, á meðal fyrstu ellefu og afa allir hlotið uppeldi í La Masia sem er nokkurskonar útungunarvél Börsunga.

Víkingur hefur mótað fjölmarga frábæra leikmenn í gegnum tíðina sem hafa getið sér gott orð víða um heim. Ef við horfum aðeins aftur í tímann blasa við fyrrverandi landsliðsmenn eins og Helgi Sigurðsson, sem nú þjálfar Fylki en hann spilaði m.a. í Þýskalandi, Grikklandi og Noregi; Lárus Guðmundsson sem var atvinnumaður í Belgíu og Þýskalandi og Arnór Guðjohnsen sem hélt kornungur úr Víkingi í atvinnumennsku í Belgíu.

Ef við lítum nær má nefna kempur eins og Kolbein Sigþórsson, Kára Árnason og Sölva Geir Ottesen sem nú er kominn til baka í Víkina. En við getum líka horft enn nær og bent á ungar hetjur eins og Aron Elís Þrándarson og Óttar Magnús Karlsson sem báðir léku frábærlega með Víkingsliðinu áður en þeir héldu utan. Spurningin er hvort við eigum afreksmenn úr yngri flokkum þessa stundina sem geta slegið í gegn á allra næstu misserum og stutt liðið í erfiðri baráttu í úrvalsdeildinni.

Andri Marteinsson, þjálfari annars flokks hjá Víkingi, segir að samstarfið við meistaraflokkinn sé mjög gott enda sé meginmarkmið hans að undirbúa og þróa leikmenn til að geta spilað með meistaraflokki. Andri segir að framboð af íslenskum knattspyrnumönnum fari minnkandi í efstu deild þótt æ fleiri ungir og góðir strákar komi upp úr yngri flokkum. Í þessu er þversögn en Andri útskýrir: „Mér virðist ástæðan vera einfaldlega sú að menn eru ekki fyrr búnir að stimpla sig inn í deild þeirra bestu á Íslandi þegar þeir eru farnir út, allt of snemma að mínu mati. Ungir strákar eiga að gefa sjálfum sér meiri tíma til að þroskast hér heima áður en haldið er út í heim.“

Logi Ólafsson þjálfari Víkinga er á því að við Íslendingar mættum vera öflugri í því að ala upp fleiri snjalla fótboltamenn til að forðast það að styrkja liðin með svona mörgum erlendum leikmönnum.

„Líkast til höfum við kosið að fá þessa erlendu leikmenn hingað sökum þess að við missum marga unga menn til útlanda sem af öðrum kosti myndu spila með sínum liðum,“ segir Logi. „Við viljum að unga knattspyrnufólkið okkar, strákar og stelpur, geti farið og freistað gæfunnar á þessum vettvangi og þá verðum við að geta tekið á móti fólki líka,“ segir Logi.

Í leikmannahópi Víkinga fyrir þetta tímabil eru sex strákar sem eru enn í 2. flokki. Þessi fjöldi ber vott um þann styrk sem Víkingar hafa í unglingastarfi. Kjarni þeirra leikmanna sem eru að banka af hörku á dyrnar í meistaraflokki þessa dagana varð Íslandsmeistari í 3. flokki árið 2016 undir stjórn Helga Sigurðssonar. Þetta eru strákar eins og Viktor Örlygur Andrason, sem leikur oftast á vinstri vængnum og Logi Tómasson, sem er á þeim hægri, varnarmaðurinn Kolbeinn Theódórsson og markverðirnir Emil Auðunsson og Tristan Þór Brandsson.  Allir glimrandi leikmenn með mikinn metnað.  Til viðbótar þessum strákum eru framherjinn Örvar Eggertsson og miðjumaðurinn Georg Bjarnasson. Allir framangreindir leikmenn eru heimaræktaðir í Víkinni nema Georg, sem kom í 4. flokki úr ÍR og Örvar sem kom í fyrra úr FH. Allir eru þessir strákar fæddir árin 1999 og 2000, og því enn í 2. flokki, nema Tristan sem er fæddur árið 1998.

Það er gott fyrir stuðningsmenn Víkings að leggja þessi nöfn á minnið – þessir ungu strákar eiga nefnilega allir framtíðina fyrir sér og eiga án efa eftir að koma við sögu í Víkingspeysunni mjög fljótlega.

FRÉTTABRÉF VÍKINGS MAÍ 2018: Jón Örn Guðbjartsson og myndataka Hreinn Magnússon


Joomla Gallery makes it better. Balbooa.com

TVG ZIMSEN logo prufa2ERREA
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna