Knattspyrna
Lið HK/Víkings hrökk heldur betur í gang í kvöld í Landsbankadeild kvenna og vann glæsilegan sigur á Keflavík, 4-1, í Víkinni. Serbneska landsliðskonan Marina Nesic skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik og þær Karen Sturludóttir og Lára Hafliðadóttir gerðu sitt markið hvor.

Þetta er fyrsti sigur liðsins í efstu deild frá upphafi og hann lyftir HK/Víkingi upp um þrjú sæti, úr tíunda og neðsta uppí 7. sætið, og liðið er nú aðeins tveimur stigum frá 4. sæti deildarinnar.

Frétt af HK-vef, sjáið líka mörkin þar

Leikurinn fór rólega af stað en Keflavík náði forystunni á 10. mínútu þegar Vesna Smiljkovic skoraði eftir snarpa sókn. HK/Víkingur náði í kjölfarið fínu spili og sjálfstraustið fór vaxandi í liðinu. Marina jafnaði metin á 28. mínútu með stórkostlegu marki, beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi. Skemmtileg byrjun hjá þessum nýja leikmanni liðsins. Lára kom svo HK/Víkingi yfir á 34. mínútu með glæsilegu skoti utan vítateigs, óverjandi fyrir markvörð Keflavíkur, og staðan var 2-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var eign HK/Víkings. Lidija Stojkanovic átti þrumuskot í þverslá strax í byrjun og Marina skoraði síðan sitt annað mark með skoti á 49. mínútu, 3-1. Það var svo Karen sem innsiglaði frábæran sigur á 83. mínútu, 4-1.

"Það er góð tilfinning að landa loks sigri og þetta er tímamótaleikur í okkar sögu, sá fyrsti í úrvalsdeildinni. Þetta var stórkostleg frammistaða hjá liðinu í kvöld og það að sigra hið sterka lið Keflavíkur gefur okkur aukið sjálfstraust fyrir þau krefjandi verkefni sem framundan eru," sagði Sigurður Víðisson þjálfari HK/Víkings.

Lið HK/Víkings: Nína B. Gísladóttir - Arna Kristjánsdóttir, Ellen Bjarnadóttir, Lidija Stojkanovic, Jovana Cosic - Rut Bjarnadóttir (Þórhildur Stefánsdóttir), Berglind Bjarnadóttir (Ósk Kristinsdóttir 84.), Marina Nesic (Valgerður Tryggvadóttir 84.), Lára Hafliðadóttir, Tinna Óðinsdóttir - Karen Sturludóttir.
Varamenn: Heiður Loftsdóttir, Ingunn Benediktsdóttir, Ástrós Gunnarsdóttir, Þórey Þorgilsdóttir.
Grant Volterenforte2019 Macron Logo NEG 1
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna