Sögubrot - skidi

Saga skíðadeildarinnar

Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað árið 1908. Eftir það liðu rúm 30 ár áður en skíðadeildin var stofnuð, en þá var rætt í stjórn félagsins að uppfylla vilja um að félagið tæki fleiri greinar en knattspyrnu á stefnuskrá sína. Áhugi var mestur á skíðaíþróttinni og byggingu skíðaskála. Hafist var handa við fjáröflun og voru margar leiðir notaðar, t.d. hlutavelta, krónuvelta og almenn samskot félagsmanna.

 • Víkingunum bauðst að leigja lítinn skála við Kolviðarhól en þótti hann óviðunandi með öllu en var þó fundinn heppilegur staður fyrir skála þar sem var rennandi vatn og líkur á að hægt væri að hita skálann með heitu vatni. Sá staður er i Sleggjubeinsdal í Kolviðarhólslandi.
 • Eftir mikinn og góðan undirbúning var grindin að húsinu reist á hvítasunnudegi árið 1941. Það sama sumar var húsið klætt. Þann 24. október 1944 var skálinn fullbúinn og skuldlaus.

  Í þá daga var það talsvert annað mál að skreppa á skíði heldur en nú er. Það var gott betur en 20 mínútna keyrsla í skíðalandið og menn fóru ekki til að vera dagstund á skíðum og í skíðalyftum. Margir héldu úr bænum síðdegis á föstudegi, aðrir á laugardagsmorgni, og voru á skíðum fram á sunnudagssíðdegi. Lyftur voru engar og gengu menn jöfnum höndum sem þeir renndu sér.

  Kvöldvökur voru fastur liður í skálanum margir snjallir kraftar komu þar fram. "Þessar vökur voru oft stórskemmtileg skemmtun" segir Agnar Ludvigsson sem var í fyrstu stjórn skíðadeildarinnar. "Meðal góðra skemmtikrafta get ég nefnt Gunnar Kristinsson, mikinn og góðan söngvara. Polli eða Lúðvík Hjálmtýsson var frábær eftirherma, sá maður var ekki til, sem Polli náði ekki".

  Gestabækur voru í skíðaskálanum og auk þess mikið af heimildum um byggingu skálans og fyrstu ár hans. Mikið af þessum gögnum eyðilagðist á páskum 1964 þegar skálinn brann til kaldra kola.

  Starf skíðadeildarinnar var blómlegt fram yfir 1950, en svo virðist sem það fari að dofna yfir starfinu árin 1953-54. Þá var líka komið að því að skálinn þyrfti á viðhaldi að halda en lítið virðist hafa verið gert í þeim efnum. 1955 var Víkingur orðinn mjög skuldsettur og kom þá fram sú tillaga að selja ÍR skálann, sem var eina eign félagsins á þeim tíma. Sú tillaga var samþykkt en þegar til kom reyndust ÍR-ingar ekki tilbúnir að kaupa hann. Á meðan á þessu þrefi stóð lagðist starf deildarinnar nánast alveg af fram til ársins 1956 er starfsemi fór aftur af stað, með nýjum formanni Frey Bjartmarz.

  Freyr segir:
  "Árið 1956 varð ég formaður skíðadeildar Víkings. Skálinn var þá í mikilli niðurníðslu og mikið starf að gera endurbætur á honum. Það árið var ég 42 helgar af 52 í Víkingsskálanum. Við vorum ekki mörg sem stóðum í þessu, auk mín nefni ég Bergstein Pálsson, Sigurð Bjarnason, Þorstein Sæmundsson, Magnús Thejll og Hjörleif Þórðarson. Okkur vantaði fleira fólk og gerðum okkur fulla grein fyrir því, að til að fá fleiri stráka þyrftum við að geta státað af stelpum í deildinni. Því fengum við "veikara" kynið til að fjölmenna í skálann og það var eins og við manninn mælt, strákarnir létu ekki bíða eftir sér".

  Árið 1951 tóku Víkingar í fyrsta skipti þátt í opinberrsi skíðakeppni og voru þeir Björn Kristjánsson og Óli J. Ólason þar fremstir í flokki, en einnig Lárus Ágústsson, Sigurður S. Waage, Margrét Hjálmarsdóttir.

  Uppúr 1960 var starf skíðadeildarinnar orðið mjög öflugt á nýjan leik, kraftur í félagsstarfinu og mikið um að vera í skálanum allar helgar. Stór hópur sótti skíðasvæðið í Sleggjubeinsskarði og framtíðin virtist blasa við deildinni. Þá dundi reiðarslagið yfir. Víkingsskálinn brann til kaldra kola á páskunum 1964. Um 50 manns voru þá í skálanum og meesta mildi að ekkki skyldu verða slys á fólki.

  Björn Ólafsson var utandyra þegar þetta gerðist:
  "Skálinn varð alelda í einu vettvangi og það eina sem komst að í huga mínum, er ég hljóp upp eftir, var að þarna yrði stórslys. Svo fór þó ekki sem betur fer. Fólkið var flest á einum stað inni í sal og beið þess að fegurðarsamkeppni karla í kvennagerfi hæfist. Skálagestir fleygðu sér út um gluggana á salnum á einu augabragði eða þá í gegnum glugga á svefnskálanum. Það sem mun hafa gerst er að ljósavél sem brenndi bensíni var undir miklu álagi. Bensíngufa frá henni hefur trúlega safnast saman uppi undir lofti og er neisti komst í gufumettað loftið þar varð sprengingin. Hún var svo öflug að veggir í eldhúsi lögðust inn. Fólkið komst ekki út um dyrnar því þar logaði hvað mest. Skálinn, sem var forskalað timburhús, brann til kaldra kola þarna um nóttina".

  Skálinn og innbú var tryggt en aðeins fyrir lítið brot af því tjóni sem Víkingur hafði orðið fyrir. Stjórn skíðadeildar, í samvinnu við stjórn félagsins, ákvað þó strax að hefjast handa um byggingu nýs skála. Fljótlega eftir brunann var ruddur vegur að skálanum, en enginn vegur hafði verið að honum áður. Byrjað var að steypa um sumarið og keypti deildin vörubíl vegna framkvæmdanna. Þremur árum síðar var skálinn fullbúinn að utan og gekk starfsemin vel, meðan áhugi og peningar entust. Eyddist af hvoru tveggja og og sum árin var lítið gert. Öll árin voru þó nokkrir menn áberandi og er skálinn var loks vígður árið 1976 voru fjórir menn heiðraðir sérstaklega fyrir störf að byggingunni, þeir Ólafur Friðriksson, Björn Ólafsson, Agnar Ludvigsson og Jóhannes Tryggvason.

  Margt hefur breyst frá því Víkingar hösluðu sér völl í Sleggjubeinsskarði. Framan af þurftu menn að ganga langa leið, yfirleitt frá Kolviðarhóli og oft að bera eða draga nauðsynjar.

  Skíðaskálinn eins og við þekkjum hann í dag, var vígður 29. febrúar 1976. Strax þegar fór að hilla undir, að skálabyggingunni lyki, var farið að huga að lyftukaupum og áður en vígslan fór fram voru þrjár lyftur komnar í gagnið. Víkingar voru þá farnir að hasla sér völl meðal skíðakeppenda og má nefna að meðal þjálfara var knattspyrnumaðurinn Lárus Guðmundsson. Þegar nýji skálinn komst í gagnið fóru Víkingar að sækja í Sleggjubeinsskarð og myndaðist fljótlega kjarni keppnisfólks, gjarnan börn þeirra er höfðu staðið að skíðadeildinni. Má nefna Guðrúnu Björnsdóttur, Þórdísi Hjörleifsdóttur, Hörn Gissurardóttir og Gunnar Ólafsson. En einnig Þórður Björnsson, Ragnar Bjarmarz, Samúel Þórisson og Þórður Hjörleifsson.

  Þessi texti er að öllu leyti unnin upp úr bókinni "Áfram Víkingur" eftir Ágúst Inga Jónsson. Bókin var gefin út 1983af knattspyrnufélaginu Víkingi.
TVG ZIMSEN logo prufa2
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna