fristundakortimage002

left direction
right direction

Stefán Már Guðmundsson látinn

CaptureStefán Már Guðmundsson, framhaldsskólakennari og formaður Íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað lést á mánudag, 55 ára að aldri.


Stefán Már fæddist í Reykjavík 18. júlí árið 1961, ólst upp í Rauðagerðinu og stundaði af kappi íþróttir með Víking. Hann var partur af hinu sögufræga 3. flokks liði Víkings í fótboltanum sem Hafsteinn Tómasson þjálfaði og vann alla titla árið 1977. Í þessum hóp voru margir af okkar þekktustu Víkingum og má þar nefna Aðalstein Aðalsteinsson, Heimi Karlsson, Lárus Guðmundsson, Óskar Þorsteinsson, Jóhannes Sævarsson, Gunnar Gunnarsson og Arnór Guðjohnsen. Stefán þjálfaði yngri flokka Víkings um nokkurra ára skeið áður en hann flutti norður í Þistilfjörð og síðar á Reyðarfjörð og Norðfjörð.

Stefán Már var athafnasamur í íþrótta- og æskulýðsmálum. Hann var framkvæmdastjóri Ungmennasambands Norður-Þingeyinga, meðal stofnenda Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, í stjórn Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar og formaður Þróttar í Neskaupsstað undanfarin ár.
Eftirlifandi eiginkona Stefáns Más er Vilborg Stefánsdóttir.

Víkingar hafa misst góðan vin og einstakan félaga sem ávallt hugsaði hlýtt til félagsins.

Knattspyrnufélagið Víkingur sendir hugheilar samúðarkveðjur til ættingja og vina.